Ókeypis herminám á netinu

Ókeypis herminám á netinu

Hvað er herminám?

Herminám (e. simulation) er kennsluaðferð þar sem líkt er eftir raunverulegum klínískum aðstæðum í öruggu umhverfi. Leitast er eftir því að hafa allan búnað sem raunverulegastan og oft eru annaðhvort notaðir leikarar eða sérstakar dúkkur sem hægt er að hlusta hjarta og lungu á, þreifa púlsa, breyta útliti öndunarvegar o.s.frv. Herminám gefur þannig heilbrigðisstarfsfólki og -nemum tækifæri til þess að æfa bæði teymisvinnu sem og ýmis sérhæfð verkefni í öruggum aðstæðum þar sem hægt er að gera mistök og læra af þeim án þess að skjólstæðingur beri skaða af. Í lok hvers tilfellis fer yfirleitt fram umræða með kennara, þar sem rætt er hvaða lærdóm megi draga af tilfellinu.

Hvar er hægt að stunda herminám?

Herminám hefur síðustu árin orðið ómissandi hluti af þjálfun langflestra heilbrigðisstarfsmanna hérlendis. Nemar og starfsfólk Landspítala kannast flest við hermisetur LSH sem nú er til húsa í Skaftahlíðinni en þar fara meðal annars fram námskeið í sérhæfðri endurlífgun. Í Eirberg, húsi hjúkrunardeildar HÍ, er rekið hermisetrið HermÍS sem er samstarfsverkefni Landspítala og Háskóla Íslands. Fyrr á þessu ári var síðan tilkynnt um fyrirætlanir um nýtt hermisetur við Háskólann á Akureyri.

Við hjá Bráðaskólanum bjóðum einnig upp á herminám fyrir heilbrigðisstofnanir þar sem við komum með herminámsdúkku og tilheyrandi búnað og setjum upp hermikennslu í húsnæði viðkomandi heilbrigðisstofnunar - það hefur þann kost að þátttakendur fá tækifæri til að þjálfa sig í því umhverfi sem þau vinna í daglega.

 

Ókeypis herminám á netinu

Allir þessir möguleikar eiga það þó sameiginlegt að um staðarnám er að ræða og því oft töluvert erfiðara um vik t.d. fyrir heilbrigðisstarfsfólk á landsbyggðinni að nálgast herminám. Okkur langar þess vegna  að benda á nokkra möguleika sem eru í boði þegar kemur að herminámi á netinu. Vissulega getur herminám á netinu aldrei komið að fullu í stað hefðbundins hermináms en það er þó góð viðbót og getur verið mikilvægur kostur þegar erfitt er að nálgast aðra hermikennslu.

Eftirtaldir möguleikar eru ókeypis og opnir öllum á netinu og flokkast því sem FOAMed eða „free open access medical education“. Við hvetjum ykkur til þess að prófa ykkur áfram með þessar síður og nota þær í bland við annað herminám og kennslu.

  • Affinity Learning. Herminám sem lítur út eins og tölvuleikur? Já takk! Á Affinity Learning er til aragrúi herminámstilfella þar sem hægt er að fara í gegnum mismunandi tilfelli, allt frá móttöku hópslysa til fæðinga og endurlífgunar barna, svo fátt eitt sé nefnt. Einnig geta kennarar búið til sín eigin tilfelli. Það er frítt að búa til aðgang, læra og búa til tilfelli sem opin eru öllum en ef þú vilt hafa möguleika á að læsa tilfellunum sem þú býrð til, þannig að þau séu eingöngu í boði fyrir þína eigin nemendur, þarf að greiða fyrir aðganginn. Affinity Learning hentar bæði fyrir einstaklinga sem og hópa.
  • Virtual Resus Room. Þessi síða varð til í Covid-19 heimsfaraldrinum og er sérstaklega hugsuð til þess að hægt sé að æfa teymisvinnu í fjarkennslu á netinu. Fjöldi tilfella eru nú þegar til inni á heimasíðunni sem ókeypis er að hlaða niður og nota en einnig geta kennarar búið til sín eigin tilfelli. Notast er við Google Slides auk Zoom, sem hvoru tveggja eru ókeypis forrit. Virtual Resus Room hentar best fyrir hópa fremur en einstaklinga og ekki er áhersla á verklega þjálfun í einstökum verkþáttum heldur teymisvinnu, skýr samskipti og verkferla.
  • Simbox. Emergency Simbox býður upp á ókeypis myndbönd með herminámstilfellum. Myndböndin eru gagnvirk og þurfa þátttakendur reglulega að velja hvernig þau vilja bregðast við aðstæðum. Myndböndin geta staðið ein og sér sem kennsluefni en þau má einnig nota til að bæta við hefðbundið staðarherminám - myndbandið er þá spilað á skjá fyrir alla þátttakendur en herminámsdúkka er einnig til staðar og nemendur nota dúkkuna til að æfa inngrip á o.s.frv. Hverju tilfelli í Simbox fylgir bæklingur fyrir leiðbeinandann með nákvæmum leiðbeiningum um hvernig setja skuli tilfellið upp og hentar Simbox því afar vel bæði fyrir reynda herminámskennara sem og byrjendur í hermikennslu.

 

Veistu um fleiri síður sem bjóða upp á ókeypis herminám? Endilega sendu okkur línu á bradaskolinn@bradaskolinn.is svo við getum bætt þeim við þessa grein.

Back to blog